Loftmengun í Reykjavík og notkun lyfja við hjartaöng

Sýnt hefur verið fram á að breytingar í styrkleika loftmengunarefna hafa áhrif á heilsufar hjartasjúklinga. Loftgæði á Íslandi eru almennt talin góð en við ákveðnar aðstæður getur styrkleiki loftmengunar farið yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík. Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka hvort samband er milli loftmengunarefnanna NO2, O3, PM10 og H2S og afgreiðslu á hjartalyfjum sem gefin eru við hjartaöng í Reykjavík.

Gögn um daglegan fjölda afgreiddra lyfja í lyfjaflokki C01DA var fenginn úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins. Gögn um magn níturdíoxíðs (NO2), ósóns (O3), svifryks (PM10) og brennisteinsvetnis (H2S) voru fengin frá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnun. Tilfella-víxlunar rannsóknarsnið (e. case- crossover design) var notað og rannsóknartímabilið var frá 1. janúar 2005 til 31. desember 2009.

Jákvætt samband reyndist vera milli loftmengunar og fjölda afgreiðslna á lyfjum í ATC flokki C01DA. Fyrir hverja 10 µg/m3 hækkun á styrkleika NO2 í lofti jókst afgreiðsla lyfja í undirflokknum C01DA02 (glýserýlnitrat; nitróglýserín) um 11,6% sama daginn. Samsvarandi varð 9% aukning á afgreiddum lyfjum fyrir hverja 10 µg/m3 hækkun á styrkleika O3. Það var 7,1% og 7,2% aukning í afgreiðslum lyfja fyrir hverja 10 µg/m3 hækkun í styrkleika NO2 og O3 miðað við mengun daginn fyrir afgreiðslu.

Ályktun: Þar sem þetta er fyrsta rannsóknin, hér á landi og erlendis, sem metur samband milli loftmengunar og fjölda afgreiðslna á hjartalyfjum verður að álykta með varúð. Engu að síður benda niðurstöðurnar til að aukning í loftmengun auki fjölda afgreiðslna á lyfjum við hjartaöng og að þetta gæti verið unnt að nota sem ábendingu um heilsufarsáhrif af loftmengun.

Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir vann rannsóknina sem lokaverkefni til meistaraprófs í Umhverfis- og auðlindafræðum og lauk námi haustið 2010.  

Leiðbeinandi:  Vilhjálmur Rafnsson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is