Loftmengun og notkun lyfja gegn teppusjúkdómum í öndunarvegi.

Loftgæði í og umhverfis Reykjavík eru yfirleitt góð en brennisteinsmengun (H2S) frá jarðhitavirkjunum og svifryk (PM) eru áhyggjuefni. Skammtímaáhrif brennisteinsvetni á heilsu eru nær óþekkt en sýnt hefur verið fram á að svifryk veldur versnun á einkennum öndunarfærasjúkdóma. Þetta er fyrsta rannsóknin á sambandi loftmengunar og öndunarfæraheilsu í Reykjavík og nágrenni.

Úr lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins var fundið hve margir, 18 ára og eldri, leystu dag hvern út lyf gegn teppusjúkdómi í öndunarvegi (ATC-lyfjaflokkur R03A). Umhverfissvið Reykjavíkurborgar lagði tili gögn um magn svifryks (PM10), níturoxíðs (NO2), ósons (O3), brennisteinsvetnis (H2S) og veðurskilyrði. Rannsóknartímabilið var frá 22. febrúar 2006 til 30. september 2008.

Poisson aðhvarfsgreining var notuð til að greina samband daglegs mengunarmagns og fjölda einstaklinga sem leystu út lyf gegn teppusjúkdómi í öndunarvegi (R03) sem og fjölda þeirra sem leystu út adrenvirk innúðunarlyf gegn teppusjúkdómum í öndunarvegi (R03A). Meðaltal sólarhringsmælinga og meðaltal hæsta klukktímagildis var reiknað fyrir þriggja daga tímabil og notað sem tæri, með 0-14 daga seinkun (lag).

Leiðrétt var fyrir áhrifum veðurs, tímaþætti, flensutímabilum og vikudögum. Jákvætt samband reyndist á milli loftmengunar og daglegs fjölda einstaklinga sem leysti út lyf með þriggja daga seinkun. Sambandið var tölfræðilega marktækt fyrir lag 3-5 fyrir þriggja daga meðaltal H2S og PM10.

Áhrifin voru svipuð fyrir þriggja daga meðaltal hæsta klukkutímagildis en þá reyndust NO2 and O3 einnig hafa marktæk aukin áhrif á lyfjanotkun. Aukin loftmengun á höfuðborgarsvæði Íslands virðist hafa væg en tölfræðilega marktæk áhrif á lyfjanotkun borgarbúa við teppusjúkdómi í öndunarvegi, ekki síst þegar litið er til hæstu mengunargilda. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að H2S auki einkenni öndunarfærasjúkdóma jafnvel þegar aukin mengun varir aðeins í skamman tíma.

Hanne Krage Carlsen vann rannsóknina sem lokaverkefni til meistaraprófs í lýðheilsuvísindum og lauk námi í ársbyrjun 2010.

Ritgerð hennar má nálgast hér.

 

Leiðbeinendur:
Þórarinn Gíslason Ph.D., M.D.,
Birgir Hrafnkelsson Ph.D.,
Helga Zoëga M.A.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is