Hagrænt mat á þjónustu vistkerfa Heiðmerkur

Okkur hættir við að taka ýmsum gæðum náttúrunnar sem sjálfsögðum og
metum þau ekki til fjár, þegar hugað er að verðmæti staða eða kostnaði
vegna framkvæmda.

En það er hægt að meta verðgildi þessara þátta og taka tillit til
þeirra t.d. þegar nýtingarstefna svæða er mótuð. Skortur á hagrænu mati á
fjölþættri þjónustu náttúrunnar leiðir oft til þess að ákvarðanir eru einungis  teknar  á forsendum um hagnað af beinni nýtingu auðlinda, en ekkert tillit tekið til annarra verðmæta sem spillast við þá nýtingu.

Heiðmörkin veitir ýmsa þjónustu s.s. vatn, veiði, við, jólatré og
ber, fjölbreytta möguleika á útivist gangandi, hjólandi, ríðandi,
skíðandi og akandi gesta. Hún veitir skjól og fegurð og mörgum finnst
einber tilvist hennar vera mikils virði. Það er brýnt að finna leiðir
til að meta þessa þætti, þegar ákvarðanir eru teknar um hvernig nýta á
Heiðmörkina.

Heiðmörk er því kjörið viðfangsefni til að rannsaka fjölþætta
þjónustu náttúrunnar og meta hana hagrænt. Slík rannsókn hefur staðið um
árabil og hafa fjölmargir aðilar sameinast um hana, þ.á.m. Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógrækt ríkisins við Mógilsá, Skógræktarfélag Reykjavíkur, Reykjavíkurborg, Garðabær og Orkuveita Reykjavíkur.

Kristín Eiríksdóttir, doktorsnemi í hagfræði, hefur unnið að verkefninu, auk Höllu Jóhannsdóttur og Gabriels Pic, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum.

Auk þeirra hafa fjölmargir  meistara- og grunnnemar verið aðstoðarmenn við rannsóknina, sem  styrkt er af Rannís og Orkuveitu Reykjavíkur. Verkefnisstjóri er Brynhildur Davíðsdóttir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is